Við teljum að umhverfisleg og siðferðisleg skylda allra fyrirtækja sé rík þegar hráefni og vörur eru keypt. Frá upphafi höfum við á Café Roma haft það að leiðarljósi og gert það sem í okkar valdi liggur til að minnka úrgang, endurvinna sorp og lágmarka umhverfisfótspor okkar.

  • Við kaupum íslenskt hráefni og verslum við íslenska birgja þegar þess er kostur og minnkum þannig kolefnisfótspor okkar vegna flutninga auk þess sem við eflum íslenska verslun.
  • Við forðumst einnota pakkningar eins mikið og hægt er til að minnka sóun. Sykur og sætuefni, smjör, salt og sulta er til að mynda ekki í einnota umbúðum sem síðan er hent og liggja í náttúrunni um ókomna tíð.
  • Við endurvinnum sorp:  Flokkum pappa, plast, ál, gler og lífrænan úrgang.
  • Við notum 100% niðurbrjótanleg kaffimál til að fara með. Meira að segja lokið brotnar niður. Kíktu hér fyrir meiri upplýsingar.
  • Við högum framleiðslu og magni í innkaupum eftir eftirspurn og pössum okkur á því að panta ekki um of þegar tíðin er róleg. Með því stuðlum við að minni matarsóun.
  • Á rólegum dögum þegar salan er minni (gerist þó ekki oft!) förum við með afgangs bakkelsi til hjálparsamtaka.
  • Við bjóðum upp á heilsusamlegri valkosti á sama verði, líkt og fjör-og sojamjólk og vegan útfærslu.

 

Kringlan setur sér það markmið að vera leiðandi á sviði umhverfismála í rekstri verslunarkjarna á Íslandi með því að fylgja ákveðinni umhverfisstefnu sem kallast Græn spor: Fyrir frekari upplýsingar kíktu hér.

 

 

Kaffibaunirnar okkar sérvöldu eru framleiddar með sjálfbærni að leiðarljósi og sterkri siðferðislegri ábyrgð í viðskiptum. Þetta er gert til að tryggja sem best lífsviðurværi fyrir bændurnar sem koma að ræktuninni. Þær hafa að baki sér tværi vottanir sem tryggja þetta:

 

UTZ Certified er alþjóðlegt verkefni sem snýst um að votta aðila sem tengdir eru ábyrgri og sjálfbærri kaffiframleiðslu, hvort sem það eru ræktendur, framleiðendur eða aðrir sem koma að ferlinu. Óháðir skoðunaraðilar sinna árlegu eftirliti til að tryggja að farið sé eftir settum reglum. UTZ Certified veitir því neytendum fullvissu um ábyrga kaffiframleiðslu, umhyggju fyrir náttúruvernd og uppruna kaffibaunanna. Fyrir frekari upplýsingar kíktu hér.

 

 

Rainforest Alliance snýst um umhverfisvernd á ræktunarsvæðum og til að fá vottunina þurfa bændur að framfylgja ströngum umhverfisstöðlum samtakanna. Þetta þýðir meðal annars að villt dýr eru látin óáreitt, regnskógar verndaðir, vatnsuppsprettum er haldið hreinum og ómenguðum og leitast er við að minnka loftslagsáhrif af mannavöldum. Komið er fram við bændur og verkafólk af virðingu og sanngirni og leitast er við að bæta lífsskilyrði þeirra. Fyrir frekari upplýsingar kíktu hér.